Velkomin sem vinur :-)

Velkomin í Sonic Pi. Vonandi finnst þér eins spennandi að fara að búa til furðuhljóð eins og mér finnst að kenna þér það. Þetta verður skemmtilegt ferðalag og þú átt eftir að læra um tónlist, hljóðgervla, forritun, tónsmíðar, tónleikahald og fleira.

En heyrðu, ég er algjör dóni! Ég gleymdi að kynna mig - Ég heiti Sam Aaron - og ég bjó til Sonic Pi. Þú finnur mig sem @samaaron á Twitter og mér fyndist meira en gaman að segja hæ við þig þar. Þú mundir kannske líka hafa áhuga á að vita meira um Live Coding Performances sem ég held og þar sem ég forrita í Sonic Pi fyrir framan áhorfendur.

Ef þér dettur eitthvað í hug hvernig mætti betrumbæta Sonic Pi - láttu mig þá vita - það er svo gagnlegt að fá hugmyndir frá öðrum. Það er aldrei að vita, kannske verður hugmyndin þín að vinsælli viðbót!

Þessi kennsla skiptist í hluta sem hver er svo flokkaður. Þó ég hafi raðað þessu þannig að auðvelt sé að byggja upp kunnáttuna smátt og smátt þá getur þú notað hlutana í hvaða röð sem þú vilt. Og ef þér finnst eitthvað vanta, væri gott að fá að vita það og aldrei að vita nema ég bæti því við í framtíðinni.

Að lokum: að fylgjast með öðrum forrita er góð aðferð til að læra. Ég streymi reglulega í beinni útsendinguá http://youtube.com/samaaron. Kíktu við, segðu hæ og komdu með helling af spurningum :-)

Jæja, hvernig væri að fara að byrja …